154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

innviðir markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

914. mál
[12:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta mál fjallar aðeins um blokkarkeðju, notkunina á henni. Það var fyrir nokkrum árum síðan farið með blokkarkeðjumál í gegnum þingið þar sem var rosalega augljóst að þeir nefndarmenn sem afgreiddu það frumvarp skildu hvorki upp né niður í því hvað þeir voru að samþykkja. Það snerist um ákveðið eftirlitsgjald fyrir Fjármálaeftirlitið til að fylgjast með aðilum sem voru að nota blokkarkeðjutæknina en blokkarkeðjutæknin er nothæf í ýmislegt annað heldur en bara rafmyntir, til að hafa það á hreinu. Það var t.d. verkefni í gangi hjá Advania, minnir mig að það hafi verið, þar sem þau voru að nota blokkarkeðjutæknina til að merkja hina ýmsu kjötskrokka, lambaskrokka, lambalæri og þess háttar, til þess að fylgjast með framleiðsluferli og upprunavottun og ýmsu svoleiðis. Og einhvern veginn féllu þau á einhverjum tímapunkti mögulega undir það að þurfa að greiða eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins vegna notkunar sinnar á blokkarkeðju til að upprunavotta lambakjöt. Þannig að ég hef ekkert gríðarlega miklar væntingar til þess að það sé tæknilegur skilningur til þess í rauninni að afgreiða þetta frumvarp hérna. Ég held að að baki því liggi ákveðið traust á því að þau hafi unnið vinnuna sína vel þarna í Evrópusambandinu, eins og er dálítið oft einhvern veginn í innleiðingunum. Hérna snýst þetta um sex ára tilraunaverkefni til að þróa það sem þarf að gera til að vinna með þessari tækni, sem er mjög áhugavert. Þetta er í rauninni tilraunaverkefni í lagasetningu til þess að sjá það sem er að fara að gerast á næstunni og tengist því sem kallast evrópski sandkassaleikurinn með blokkarkeðju. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé nægilega grundvallað hérna á Íslandi til að það geti passað með þessu frumvarpi.